Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Er einhver þörf fyrir Framsóknarflokkinn!

Nú þegar sá óskadraumur okkar margra hefur ræst að hluta, að Framsókn hefur fengið makleg málagjöld í kosningum til alþingis, rísa menn hver um annan þveran upp og lýsa hluttekningu með hræinu, og pæla í því hvernig best verði komið fótunum undir bjálfann á ný!

Ég segi nú bara að miklu heldur skulum við vinna áfram að niðurlagningu þessa óþurftarþröngrasérhagsmunagæsluflokks . Hann hefur engu augljósu hlutverki að gegna í þessu þjóðfélagi í dag. Aðrir flokkar  hafa á sínum stefnuskrám allt það sem Framsókn þóttist standa fyrir, en var auðvitað hin seinni árin bara yfirvarp sem þeim datt aldrei í hug að taka hátíðlega!


Guðni formaður!

Framsóknar er farinn Jón,

formennsku af stóli.

Þeytir Guðna þetta á trón,

því  ólíkindatóli.

 


Þingvallastjórn!

Saman á Þingvöllum sátu þau fund,

Solla og Geir Hilmar Harði.

Þau kysstust og keluðu,

hvort annað véluðu,

komin var stjórn fyrr en varði.

 


Baugalín !

Eftir fæðing' furðu snögga,

fram kom Baugalín.

Björn er áfram yfirlögga,

annað virðist grín.

 


Ekki upplitsdjarfur LÍÚ formaður, enda málstaðurinn slæmur!

Frekar hvimleitt að þurfa að hlusta á fjandans bullið í fulltrúum sægreifanna, ódámum íslenskra sjávarbyggða, að þykjast ekki sjá samhengið milli hins ólánlega kvótakerfis og ógæfu margra sjávarbyggða hringinn í kringum landið.  Kvótakerfis sem sannanlega hefur ekki byggt upp veiðistofnana, nema síður sé!

Björgólfur Jóhannsson var í hlutverki hins ótrúverðuga talsmanns vitleysunnar ,sem þjónar aðeins hagsmunum umbjóðenda hans en ekki þjóðarinnar í heild, í Kastljósþætti á móti Grétari Mar í kvöld.

Heyra svo þessa menn gefa í skyn að engar tækniframfarir hefðu orðið í greininni ef þetta fjandans afætukerfi hefði ekki komið til.  Bull !

Það blasir auðvitað við hverjum skynsömum manni, að auðveldara yrði að endurreisa veiðar og vinnslu í plássi þar sem einn rekstraraðili fer á á hausinn, ef ekki þarf hverju sinni að kaupa veiðiheimildirnar dýrum dómum á uppsprengdu ofurverði sem er komið langt fram úr því sem raunhæft getur talist. Greiða þannig óverðugum offjár fyrir að fá að stunda þann rekstur áfram sem grundvallaði byggðina frá upphafi vega.

 


"Uss,ekkert að marka, þau geta alveg verið í sundskýlum".

Datt í hug gömul saga af einum gömlum sveitunga mínum forðum, þegar menn velta fyrir sér hvort ekki sé alvara á ferðum í bólförum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Karlinn ,sem var einhleypur bóndi og ekki mikið við kvenfólk kenndur, en þóttist vita helstu undirstöðuatriðin í samskiptum kynjanna, fór með nokkrum yngri mönnum í bíó , að sjá hina "djörfu"  mynd, á þeirrar tíðar mælikvarða, 79 af stöðinni.  Þetta mun hafa verið um eða eftir 1960, í upphafi Viðreisnar, og mig hálfminnir að talað hafi verið um að bíómiðinn kostað svipað og kíló af smjöri og þótti dýrt á þeim tíma.

Þegar hæst stóð leikurinn í rúmsenu myndarinnar með leikurunum Gunnari Eyjólfssyni og Kristbjörgu Kjeld  , sem að þeirrar tíðar hætti fór að mestu fram undir sæng,  heyrðu félagarnir að hnussaði í karlinum!

"Uss , ekkert að marka ,þau geta alveg verið í sundskýlum".

 


Raufarhöfn 2003,Flateyri 2007.

Skyldi það vera tilviljun að tilkynnt er um hrun útgerðar og fiskvinnslu í þessum sjávarútvegsplássum "korteri" eftir kosningar?

Eftir að ósannindamenn á vegum stjórnvalda hafa enn og aftur dásamað hið stórkostlega fiskveiðistjórnunarkerfi okkar í aðdraganda alþingiskosninga, hendir það nú enn og aftur í kjölfar þeirra að hrun verður ljóst í greininni í lítilli sjávarbyggð á landsbyggðinni og atvinnulíf þar með í rúst á staðnum.

Er það algjör tilviljun að þetta sé ekki tilkynnt fyrr en að kosningum loknum í báðum tilfellum?


Völva Vikunnar gerði frekar ráð fyrir DV stjórn!

Var að lesa yfir Völvuspána síðustu, og komst þá að því að mig misminnti um að hún hefði spáð D-S stjórn. Líklega var það önnur völva, hugsanlega á vegum Hér og nú.

Margt fer býsna nærri hjá Völvu Vikunnar um niðurstöður kosninganna, en þó ekki allt nákvæmt.

Gengur út frá tveggja flokka stjórn undir forsæti Geirs, en telur það verða annað hvort með Vinstri grænum eða jafnvel Framsókn áfram! Nú er auðvitað ekki öll nótt úti enn fyrir þessari spá, þótt líkurnar séu á þessari stundu nokkuð sterkar fyrir að Samfylkingin hafi betur.

Þá telur völvan að tími Björns Bjarnasonar sé liðinn sem stórkanónu í Íslenskri pólitík.

Vangaveltur hafa verið hjá ýmsum um að Geir verði að hafa Björn áfram í ráðherraliðinu til að sýna "auðmanninum" Jóhannesi í Bónus í tvo heimana, en spyrja má sig að því hvort Geir væri ekki þannig að sýna stórum hluta kjósenda flokks síns fingurinn.  Ef hann hleður undir þá þingmenn sem fá slíka útreið hjá eigin kjósendum!


Sérkennilegur málflutningur Kolbrúnar Bergþórsdóttur!

Var að horfa á Kolbrúnu og Ólaf Teit ræða stjórnarmyndunarmál. Kolbrún tók upp þykkjuna fyrir Ingibjörgu Sólrúnu vegna sífellds skítkasts Sjálfstæðismanna að henni, sem auðvitað er innistæðulaust, og ég er sammála henni í því.

 En svo kom þar sögu ,að nefnd var hugmynd sem farið er að slúðra um ,og talið áhugamál Davíðs Oddssonar og fleiri "hatursmanna" Ingibjargar . Sú er að kippa Frjálslyndum í stjórn til viðbótar við Framsókn til að styrkja hana og minnka vægi einstakra þingmanna.

Þá kom þessi innistæðulausa yfirlýsing frá Kolbrúnu um að þar væri ekki nokkrum manni treystandi!

Hvað hefur hún fyrir sér í því?  Hafa þingmenn Frjálslynda eitthvað til saka unnið? Kolbrún verður að rökstyðja sín orð, annars er hún á sama plani og Óvildarmenn Ingibjargar Sólrúnar!

Er hægt að vera ómálefnalegri en þetta ,að kasta einhverjum skít að mönnum sem ekki hafa neitt til saka unnið?

 


Geir dregur Framsókn á asnaeyrum meðan hann leggur grunninn að stjórn með Samfylkingu!

Öllum augljóst sem með fylgjast að Geir er að halda Framsókn við efnið, svo hún bíti ekki á agnið hjá Vinstri flokkunum um s.k. Vinstri stjórn.

Á meðan eru Geir og Ingibjörg Sólrún á fullu að vinna að stjórnarmyndun bak við tjöldin!

Getum held ég reiknað með að Völva Vikunnar hafi séð þetta rétt fyrir um áramótin!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband