Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Tröllskapur og heimska?

Að hlusta á umræðuna um vanda sjávarútvegs gerir mann alveg gáttaðan.

Hafró hefur fengið Hagfræðistofnun til að reikna sér í hag ,hvernig við getum stórgrætt á að leggja  hérumbil af veiðar hér við land í nokkur ár. Tómur gróði af því að hætta þessari fiskveiðivitleysu. En sjálfsagt verður samt áfram verslað með kvóta uppá vonina um betri daga þegar allur fiskur í sjónum verður sjálfdauður af fæðuskorti vegna ofsetinna haga þar.  Það mun auka hagvöxtinn ómælt býst ég við.

Gott ef ekki verður margföldun á verði heimildanna, því LÍÚ menn sem vilja fá að segja Hafró mönnum sem mest fyrir verkum, væntanlega sem sérstaklega hlutlausir aðilar sem hafa engra hagsmuna að gæta.  Munu ákveða að Hafró ábyrgist 300-400 þús. tonna  veiði þorsks næstu árin eða áratugina á eftir að fitun fiskistofna í ofsetnu hafinu hefur náð hámarki!    Kannske verðum við samt að leyfa auknar veiðar ýmissa smáfiska af matseðli þorsksins , s.s loðnu ,kolmunna o.fl. til að halda flotanum í einhverju brúki þessi mögru ár.

  Sumir eru svo skýrir að sjá að auðvitað sé það best að "HAGSMUNAÐILAR" ráði sem mestu um rannsóknir sem lúta að aðgengi þeirra að náttúruauðlindum.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands er auðvitað sérstaklega trúverðugur aðili til að reikna þetta út , enda Ragnar Árnason þar hæstráðandi , alveg sérstakur talsmaður og aðdáandi hins íslenska fiskveiðistjórnunarkerfis gegnum tíðina.  Enginn þarfa að láta sér detta í hug að það hafi minnstu áhrif á niðurstöðu stofnunarinnar!

Svo koma stjórnmálamennirnir fram hver á fætur öðrum og segjast auðvitað ekki geta gengið gegn þessum miklu vísindum! Geir var auðsjánalega mikið létt, að hafa álit Ragnars kvótaaðdáanda og félaga á bak við sig og sjávarútvegsráðherrann , þegar þeir tilkynna ákvörðun sína um slátrun nokkurra byggðarlaga á landsbyggðinni á næstu dögum! 

Þetta verður jú allt svo þjóðhagslega hagkvæmt!

 


Geir ekki vel tengdur?

Í þjóðhátíðarræðu ræddi Forsætisráðherra vor hið dásamlega fiskveiðistjórnunarkerfi sem hefur svo marga kosti,( sem enginn getur samt með rökum bent á hverjir eru).

Þá nefndi hann að menn heimtuðu endalaust að fá  að veiða meira og meira, og það sæi hver heilvita maður að gengi ekki!

Staðreyndin er hinsvegar sú að menn eru að berjast gegn því að mega veiða minna og minna!

Ólíkt vitrænni virðist manni hátíðarræða nýafsetts ráðherra, Sturlu Böðvarssonar ,hafa verið vestur  á Ísafirði. Kannske er nauðsyn að sparka öðru hvoru undan mönnum stólunum svo þeir sjái ljósið!  


Opinberum lítilmennsku okkar og öfund! Mótmælum sjálftöku ofurlauna í Seðlabankanum og víðar!

Oftast er reynt að kveða í kútinn gagnrýnendur hárra launa hjá Stjórnendaelítunni í sem öfundsjúkt undirmálsfólk sem geti ekki unnt "duglegum snillingum" þess að bera meira úr býtum en allur almenningur!

Þeim sé þetta bara sjálfsögð umbun fyrir snilli sína og afburða greind við að leiða okkur hin til betra lífs.

Á sama tíma er stjórnunin hjá þessum snillingum gjarnan þess eðlis að  efnahagslífið hangir á bláþræði, og þessar hetjur , sem verðskulda háu launin , fá ekki rönd við reist.

Verðbólgan æðir upp, og vextirnir sem þessir snillingar ákveða gera okkur undirmálsfólkinu lífið leitt. Skerða okkar fáu krónur ,sem við höfum til framdráttar lífinu , enn og aftur, en hvað varðar þá um það.

Þetta eru einfaldlega fæddir snillingar og eiga margfalt skilið þessi ofurlaun sem við erum að öfundast yfir.

En fyrir hvað?- það er svo önnur saga.  Líklega afþví bara!


Sjálfvirk launahringekja Seðlabankans!

Frábært kerfi sem Davíð og félagar hafa komið sér upp í launamálum!

Þegar þá langar sjálfa í launahækkun, er ekki annað fyrir þá að gera en hækka næstráðendur sína duglega í launum. Hitt kemur svo í framhaldinu að bankaráðið  fer þá að skammast sín fyrir hvað blessaðir Stjórarnir eru illa launaðir miðað við næstráðendur.  Þeir hrista af sér slyðrorðið og hækka þá duglega í launum, líklega óumbeðið, því þetta er soddan skömm að þeir hafi ekki nema 2-300 þúsund króna forskot á hina. Þeir eiga sko sannarlega skilið að fá 100 þúsund krónur i laun fyrir hvert prósentustig sem stýrivextirnir hækka!


Ætlað samþykki! Hættuleg aðför að frelsi einstaklinga?

Nú heyrir maður vangaveltur heilbrigðisstétta og fleiri um að túlka það samþykki fyrir notkun líffæra manns í þágu annarra, ef svo vildi til að maður kveðji þetta líf með einhverjum  nothæfum vefjum í líkamanum, nema maður beinlínis banni það  meðan maður er lífs!

Minnir svolítið á aðfarirnar við stofnun íslenskrar Erfðagreiningar á sínum tíma, þegar ofbeldismenn þáverandi stjórnarflokka fóru fram með hroka gagnvart almenningi og sneru réttindamálum á hvolf. Rökin voru jú sú að læknaskýrslur væru hvort sem er ekki það vel vaktaðar, að hægt væri að stelast í þær ef menn hefðu vilja til.

Líklega eru rökin í þessu máli þau, að líffæraþjófnaður sé hvort eð er stundaður  í miklum mæli ,bæði úr látnum og lifandi, því sé best að blessa yfir athæfið, hafi menn ekki fyrirfram látið þinglýsa yfirlýsingu um að ekki megi leggjast á hræið!


Unga fólkið skilur ekki óeðli kvótasetningar á atvinnuvegi!

Vaxin er úr grasi kynslóð sem þekkir ekki annan veruleika í tveimur af höfuð atvinnuvegum landsmanna til skamms tíma, sjávarútvegi og landbúnaði.  Að þessu fólki er í dag óspart logið af höfundum og helstu njótendum þessara vitlausu kerfa,að þessar greinar hafi verið komnar á þvílíkan vonarvöl um 1980 vegna stjórnleysis, að þessi úrræði hafi ein getað bjargað frá hruni.

Margt var auðvitað að fara úrskeiðis á þessum tíma ,en auðvitað mátti laga það allt með öðrum hætti, en að loka greinunum með kvótarugli eins og  gert var . Meint hrun fiskistofna sem var ein meginröksemdin fyrir fiskveiðistjórnun með þessum hætti,en að öllum líkindum var það rugl. Náttúrulegar sveiflur hafa allatíð verið í fiskistofnum, og menn stukku á eina niðursveifluna til að réttlæta kerfi sem hefur gert ma. skapara sína að milljarðamæringum en að öllum líkindum stuðlað frekar að aflasamdrætti og spillt fiskistofnum. 

 Í landbúnaðinum var það hins vegar takmarkaður markaður sem var réttlætingin fyrir kvótasetningunni. Þar var offramleiðsla m.a. í kjölfar óeðlilegra útflutningsbótareglu sem menn sáu ekki að sér í tíma að breyta. Og í stað þess að aðlaga greinina markaðnum með eðlilegum hætti , var stokkið á það ráð að pakka styrkjunum saman í grunninn að óeðlilegri forgjöf fyrir útvalda í bændastétt og nánast banna um tíma öðrum að framleiða óstyrktar vörur í samkeppni, enda svosem ekki auðvelt að standa undir því.

Í verslun hefur síðan einokuninni var aflétt verið talið nánast heilagt að varðveita verslunarfrelsið. Hægt er að sýna fram á með rökum að milljarðar tapast á ári hverju í gjaldþrotum sem verða í óheftri samkeppni í greininni. Eflaust gætu einhverjir fræðingar reiknað út fyrir "frjálshyggjumenn" þjóðarinnar , að það væri þjóðhagslega hagkvæmt að koma aftur á verslunareinokun, n.k. kvótasetningu á verslun . Hliðstætt og í landbúnaði er um takmarkaðan markað að ræða innanlands. Byggt yrði á "aflareynslu" þeirra sem fyrir eru í greininni, og verslunarsvæðum úthlutað til þeirra eftir fyrri viðskiptum. Aðilar gætu svo verslað með þessi réttindi sín á milli , þar til öll verslun væri komin á enn færri hendur.  Selt sig útúr greininni og flutt með afraksturinn jafnvel úr landi. Eftir stæði greinin skuldsettari en áður, og líklega yrði það kallað hagræðing, eða hvað?

Hvernig sæi unga fólkið það fyrir sér? Er þetta samlíking sem það skilur?

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband