Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Skyldu aðrir fulltrúar í borgarstjórn geta framvísað heilbrigðisvottorði?

Frekar finnst mér lítilmótlegt þetta tal um heilbrigðisvottorðið hans Ólafs F. Skyldu ekki flestir núverandi borgarfulltrúar hafa einhverntíman á lífsleiðinni þurft að skila inn heilbrigðisvottorði?

Ólafur hefur það þó líklega fram yfir hina alla að hafa fengið sérstakt vottorð um heilbrigði til að taka sæti í Borgarstjórn.

Hans staða hlýtur að teljast sterkari en hinna að því leyti!


Eru sóknarfærin hér í stóra varamannamálinu í borginni? Vangaveltur hvort möguleiki sé fyrir Ólaf F að sniðganga Margréti og co ef þau verða óþæg!

 Smápæling án ,ábyrgðar, hvort möguleiki sé fyrir Ólaf F. að komast framhjá Margéti sem varamanni ef hann gengur aftur í Frjálslynda flokkinn þar sem hann var skilst manni þegar kosið var til borgarstjórnar!

Spurning hvort hægt sé með góðum vilja að heimfæra þessa grein uppá ástandið í F-listanum. Hann var jú borinn fram af Frjálslynda flokknum og óháðum.  Spurning hvort einhverjir Frjálslyndir séu eftir á listanum til að gegna stöðu varamanns fyrir Ólaf F. ef hann gerist aftur Frjálslyndur!

Spurning hvort Óháðir sem Margrét segist tilheyra ,geta talist samtök? Kannske Sjálfstæðismenn fái Ofurlögfræðinga sína til að túlka þetta Ólafi í hag!

Úr lögum nr 45,3.júní1998

24. gr. Varamenn.
Varamenn taka sæti í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir eru kosnir þegar aðalfulltrúar þess lista sem þeir eru kosnir af falla frá, flytjast burtu eða forfallast varanlega á annan hátt eða um stundarsakir frá því að sitja í sveitarstjórn.
Nú er framboðslisti borinn fram af tveimur eða fleiri stjórnmálaflokkum eða samtökum og geta þá aðalmenn listans komið sér saman um mismunandi röð varamanna eftir því hver aðalmanna hefur forfallast. Yfirlýsing um slíkt samkomulag skal lögð fram á fyrsta eða öðrum fundi sveitarstjórnar eftir kosningar.
Nú næst ekki samkomulag milli stjórnmálaflokka eða samtaka sem standa að sameiginlegum lista, og skulu þá þeir varamenn listans, sem eru úr sama stjórnmálaflokki eða samtökum og aðalmaður sá sem um er að ræða, taka sæti hans í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir voru kosnir án tillits til þess hvar þeir annars eru í röð varamanna. Sé enginn úr hópi varamanna slíks lista í sama stjórnmálaflokki eða samtökum og aðalfulltrúinn sem í hlut á var þegar kosning fór fram taka varamenn listans sæti samkvæmt venjulegum reglum.
Þegar aðalmaður flytur úr sveitarfélaginu um stundarsakir má ákveða að hann skuli víkja úr sveitarstjórn þar til hann tekur aftur búsetu í sveitarfélaginu. Tekur þá varamaður hans sæti samkvæmt framangreindum reglum.


Pólitísk ábyrgð? Hvernig stendur Árni skil á henni ef hann fer til annarra starfa fyrir næstu kosningar?

Smávangaveltur í framhaldi af pælingum Stefáns Friðriks Stefánssonar um að Árni Mathiesen sé liklega að taka við forstjórastöðu Landsvirkjunar.

Ein meginrökin hjá Árna og hans verjendum í stóra-Héraðsdómaraskipunarmálinu,fyrir því að hann hafi óskoraðan rétt til að skipa hvern þeirra umsækjenda sem honum sýndist , eru að hann muni sem pólitíkus þurfa að mæta dómi kjósenda í fyllingu tímans!

Hvernig halda þau rök í ljósi þess að hann getur hvort heldur sem er, ákveðið að hverfa til annarra starfa áður en til þess dóms kemur, eða beinlínis ákveðið að gefa ekki kost á sér oftar til kjörs af óútskýrðum ástæðum.   Hvernig fara menn þá að því að koma hinni pólitísku ábyrgð á hendur honum?  

Læðist nokkuð að manni grunur, að Árna hafi verið att á foraðið í trausti þess að hann mundi aldrei þurfa að leggja verkið í dóm kjósenda í kosningum!


Það þarf að koma þessum AULUM frá völdum. Megum ekki gleyma þessari svívirðu strax!

Þetta er mér efst í huga eftir að heyra Geir Haarde , s.k. forsætisráðherra þjóðarinnar hreyta skít í sér langtum greindari öðling ,Sigurð Líndal.   Veit að þetta er varla málefnalega til orða tekið, en svo sannarlega eru þau ekki málefnaleg rökin sem eru flutt til stuðnings þessari fáránlegu embættisfærslu setts dómsmálaráðherra.

Grein Sigurðar Líndal í Fréttablaðinu segir það sem þjóðin er að hugsa þessa dagana .

 Látum ekki ófyrirleitna ráðherra íhaldsins drulla oftar yfir þjóðina með þessum hætti! Í ofanálag reyna þeir að gera lítið úr fulltrúum þeirra þjóða í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sem stóðu að áliti hennar um hið fáránlega íslenska kvótakerfi, og hvernig það hefur verið notað til að brjóta á réttindum einstaklinga.

Eins og réttlætiskennd og sanngirni sé einhver einkaeign vestrænna þjóða. Eru Bretar og Bandaríkjamenn eitthvað líklegri til að úrskurða vitrænt um svona nokkuð? Vilja Íslendingar láta "afgreiða" sig með svipuðum hætti, ef þeim skyldi nú takast að komast í öryggisráðið?Við erum jú bara smáþjóð norður í Ballarhafi. Varla marktæk , eða hvað?


Hvers vegna ættu þeir bótarétt frekar en fjárfestar sem tapa á hlutabréfakaupum? Máttu vita að ekkert var tryggt!

 LÍÚ málpípan Friðrik, arftaki Harmagráts, kom að því í viðtali í fréttum dagsins að auðvitað yrði ekki hróflað við núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi nema borga umbjóðendum hans bætur fyrir fiskveiðiheimildirnar! En ég bara spyr: Hljóta þeir ekki að haf keypt þetta í eigin áhættu vitandi um hvað stendur í 1.gr. laga um stjórn fiskveiða?

1.kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Hafa þeir einhvern uppáskrifaðan samning frá sjávarútvegsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs sem ábyrgist þeim varanlegan eignarétt þessara heimilda á fullu verði?

Er staða þeirra ekki hliðstæð stöðu kaupanda hlutabréfa sem falla í verði , jafnvel alveg í 0?

Hvert sækja þeir bætur?


Vantar sárlega einhvern aðila sem getur með myndugum hætti tekið í hnakkadrambið á brotlegum ráðherrum og ríkisstjórnum!

Manni dettur þetta oft í hug hvernig sé hægt að fá stjórnvöld sem þráfaldlega brjóta af sér gagnvart góðri venju og oftá tíðum líka beinlínis lögum þessa lands, til að hlýða og skammast sín þegar úrskurðað hefur verið þeim öndvert um afbrotin!

Ef að líkum lætur verður nýfallinn úrskurður um galla fiskveiðistjórnunarkerfisins blásinn af sem prump, og sjávarútvegsráðherra þegar farinn að tala á þeim nótum!

Ólíðandi útúrsnúningar og orðhengilsháttur er oftast notaður til að kjafta sig frá hneykslinu, og þannig í raun beinlínis aukið á skandalinn, í stað þess að bregðast við og leiðrétta . Öllum getur jú orðið á.

Spurning hvort sé hægt að hafa einhverskonar þjóðkjörið yfirvald, fjölskipað sem hafi óskoraðan stjórrnarskrárvarinn rétt, eða beinlínis skyldu til að setja slíka kóna af , sem ekki fara að úrskurðum sem falla gegn vafasömum gjörningum þeirra!  Það má víst ekki nefna Forsetann í því sambandi, en kannske dettur manni fyrst í hug að slík yfirvald yrði kjörið samhliða honum og starfaði í samráði við embætti forseta!


Hvar er reglugerðin sem vísað er til í lögum um dómnefndina sem metur hæfni umsækjenda? Skyldi hafa hentað að láta hana hverfa,eða hvað?

Fór að skoða lögin um skipan héraðsdómara, og sé að skv. þeim hefur verið sett reglugerð um starf dómnefndar sem lögin ákveða að fjalli um hæfni umsækjenda. Fann hinsvegar ekki reglugerðin á vef dómsmálráðuneytis, og í lagasafninu á netinu er linkur inná þessa reglugerð, nr 693/1999 ,ekki virkur. Skoðaði líka niðurfelldar reglugerðir en þessi er ekki þar á meðal! Getur verið að mér hafi sést yfir eitthvað?

Hentar það kannske einhverjum málstað að fólk hafi ekki aðgang að þessari reglugerð meðan mesta moldviðrið gengur yfir útaf vægast sagt vafasamri skipun í embætti dómara við Héraðsdóma Norður-og Austurlands?

Lögin (hér að neðan) segja auðvitað til um skipunarrétt Dómsmálaráðherra, en jafnframt um skipan dómnefndar til að hæfnismeta! Til hvers væri það ef ekkert skal með það gera.  Bara einhver atvinnubótavinna fyrir afdankaða dómara?

Hvaða rétt hefur settur dómsmálaráðherra til að niðra lögskipaða nefnd sem skal vera honum til ráðuneytis. Hvaða endemisvitleysa er það í honum og hans kórdrengjum að telja nefndina vera með derring?    Helvítis hroki er þetta!

 

"III. kafli. Héraðsdómstólar.

 12. gr. Dómarar í héraði eru 38 að tölu og skipaðir ótímabundið í embætti héraðsdómara af dómsmálaráðherra.

 Þann einn má skipa í embætti héraðsdómara sem fullnægir þessum skilyrðum:

   1. Hefur náð 30 ára aldri.

   2. Hefur íslenskan ríkisborgararétt.

   3. Er svo á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gegnt embættinu.

   4. Er lögráða og hefur aldrei misst forræði á búi sínu.

   5. Hefur hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.

   6. Hefur lokið embættisprófi í lögfræði eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður því jafngilt.

   7. Hefur í minnst þrjú ár verið alþingismaður eða stundað málflutningsstörf að staðaldri eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi hjá ríkinu eða sveitarfélagi, en leggja má saman starfstíma í hverri af þessum greinum.

 Dómsmálaráðherra skipar þrjá menn í dómnefnd til þriggja ára í senn til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Skal einn nefndarmanna tilnefndur af Hæstarétti og er hann formaður nefndarinnar. Tilnefnir Dómarafélag Íslands annan mann í nefndina úr röðum héraðsdómara en Lögmannafélag Íslands þann þriðja úr hópi starfandi lögmanna. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt. Skipunartími í nefndina er þrjú ár, en þó þannig að skipunartími eins manns rennur út hvert ár. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns í nefndinni oftar en tvisvar samfleytt.

 Dómnefnd skv. 3. mgr. skal láta dómsmálaráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um embætti héraðsdómara. Ráðherra setur að öðru leyti nánari reglur1) um störf nefndarinnar.

   1)Rgl. 693/1999. " (feitletun er bloggritara)

Hver ætli yrðu viðbrögð  ráðherrans ef  æðsti embættismaður þjóðarinnar færi að túlka lögin bókstaflega, og skipa ráðherra af eigin geðþótt?

Það stendur jú ekki þarna að hann sé bundin af áliti neinna annarra !

En svona hljóðar upphaf  15.greinar stjórnarskrárinnar!

"15. gr. Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim".

Gæti orðið gaman að sjá upplitið á helstu forkólfum íhaldsins ef forsetinn færi að haga sér svipað og þeir sjálfir leyfa sér!

 


Að njóta eða gjalda faðernis!

Það hafa verið ein helstu varnarrök niðurlútra sjálfstæðismanna fyrir umdeildri dómaraskipun við Héraðsdóma Norður- og Austurlands nýverið, að Þorsteinn sá sem hnossið hlaut megi ekki gjalda faðernis síns og ómanneskjulegt sé á þeim forsendum að gagnrýna skipunina.

En hafa verður í huga að öllum er ljóst að maðurinn fékk embættið mjög sennilega á forsendum faðernis síns eingöngu! Hefði líklega ekki komið til álita með sinn menntunar og reynslubakgrunn annars! Þar af leiðir að hann verður að sætta sig við að nokkuð nærri hans persónu sé höggvið í umræðunni.

Tók eftir að Sigurði Kára var ekkert sérstaklega skemmt að þurfa að gerast varnarmaður gjörningsins Kastljósinu í kvöld. Rjóður,flóttalegur og lítt upplitsdjarfur miðað við fyrri framkomur hans í fjölmiðlum. Hlýtur enda að vera erfitt faglega fyrir löglærðan mann að verja þessa vitleysu. Árni Þór var þó engan veginn beittur í sinni gagnrýni! Reyndar frekar slappur.


Er trúleysi jafnvel VERRA en einhver djöflatrú, eða trú á einhver önnur óstaðfest hindurvitni??

Um leið og ég óska bloggverjum öllum gleðilegs árs og friðar , get ég ekki annað en velt fyrir mér þessari spurningu!

Af býsnamálflutningi sumra s.k. trúmanna og kirkjunnar þjóna gæti maður stundum ályktað að verra sé að vera það sem kallað er Trúleysingi, heldur en að trúa einhverri óskilgreindri vitleysu.

Sauðarlegt tal um hið kalda tóm trúleysisins sem sé svo mannskemmandi að það hljóti óumflýjanlega að geta af sér verra samfélag en ella, er ofar mínum skilningi.

Held reyndar frekar að trúin sé oft flóttaleið einstaklinga sem hafa lent í einhverri andlegri krísu , n.k. tómarúmi andans af einhverjum óskilgreindum ástæðum. Átta sig svo engan veginn á því að aðrir geti komist í gegnum lífið óbrenglaðir án þess að "frelsast" til einhverskonar trúar.

Þetta er mikill misskilningur. Trúleysi hlýtur að vera hið eðlilega upphafsástand hverrar mannskepnu. Mikilvægt hlýtur að teljast að hver einstaklingur á sinni þroskabraut fái hlutlausa uppfræðslu um veröldina og þau tækifæri sem hún hefur uppá að bjóða í trúarlegum efnum. Ekki sé þrýst á unglinga sem vart hafa þroska til, að taka afstöðu í þessum efnum. Þar sé leið trúleysisins s.k. gefin sem eðlilegur valkostur á við trúarbrögð ýmiss konar.

Verður að segjast útfrá kaldri skynsemi og rökfræði hljóti það alltaf að vera valkostur nr. 1 ! Þ.e. að trúa fyrst og fremst á það góða í hverri skepnu þessa heims og viðleitnina til að halda frið á jörðu.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband