Þeir missa sem eiga !
12.10.2010 | 13:33
Svo er stundum til orða tekið og á við á ýmsum sviðum. Lífeyrissjóðirnir hafa sankað að sér iðgjöldum okkar launamanna gegnum tíðina og þeim ber auðvitað að ávaxta það pund sem best þeir mega til að tryggja okkur einhverja afkomu á endasprettinum , þegar launaðri vinnuþáttöku lýkur.
Ljóst er að misvel hefur til tekist og okkur má vera ljóst að þessir , allt að því sjálfskipuðu , fulltrúar okkar í sjóðstjórnunum hafa því miður umgengist þessa sjóði með lítilli virðingu. Nánast farið með þetta sem eigið sukkfé. Greitt sér ótæpileg laun með ómældum bílafríðindum o.fl.
Þar fyrir utan voru þeir ansi bláeygir margir að gambla með þetta lífsframfærslufé okkar í ellinni og mun víst ómælt hafa tapast í þeim hrunadansi.
Nú stöndum við frammi fyrir því ,að ef við eigum að koma til móts við stóran hluta umbjóðenda þessara sjóða og gefa eftir eitthvað af uppskrúfuðum kröfum sjóðanna á hendur sínum eigin eigendum, þá þarf líklega að afskrifa eitthvað af þeim loftbólugróða sem verðtryggingin blessuð hefur mælt og talið inná efnahagsreikning þeirra. Þessi umdeilanlega aukna eignastaða sem verðtryggingin skapar að hluta, byggist þannig að nokkru á auknum vandræðum lántakenda sjóðsins ,sem jafnframt eru þá aðilar að viðkomandi sjóði með iðgjöldum sínum. Semsagt sjóðirnir hafa hagnast á kostnað skuldaranna.
Þar kemur að því sem máltækið greinir; Þeir missa sem eiga!
Augljóst má öllum vera að við aðstæður sem nú ríkja í kjölfar hrunsins, verður að teljast léttbærara þeim sem eitthvað áttu að tapa hluta eigna sinna , en þeim sem lítið eða ekkert áttu að bæta á sig skuldbindingum . Alveg burtséð frá því að einhverjir hafi farið geyst og glannalega fjárhagslega, hafi þeir ekki haft af því einhvern gróða sem skotið er undan í skattaskjól erlendis, þá ber að létta öllum lífið sem nemur forsendubresti þeim sem fjármálakerfið olli í hagkerfinu með sinni gálausu glæpsamlegu keyrslu.
Gáum líka að því að skuldarar, þessi óhreinu börn hagkerfisins( eru þrátt fyrir allt forsenda þess að fjármagnseigendur geti ávaxtað sitt pund), eru til viðbótar við ok skulda byrðanna, þáttakendur í auknum samfélagskostnaði vegna hrunsins á alla kanta.
Afskrifa þyrfti 220 milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Vel mælt og tek heilshugar undir þetta hjá þér Kristján.
Tryggvi Þórarinsson, 12.10.2010 kl. 13:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.