Hvar er reglugerðin sem vísað er til í lögum um dómnefndina sem metur hæfni umsækjenda? Skyldi hafa hentað að láta hana hverfa,eða hvað?
11.1.2008 | 13:06
Fór að skoða lögin um skipan héraðsdómara, og sé að skv. þeim hefur verið sett reglugerð um starf dómnefndar sem lögin ákveða að fjalli um hæfni umsækjenda. Fann hinsvegar ekki reglugerðin á vef dómsmálráðuneytis, og í lagasafninu á netinu er linkur inná þessa reglugerð, nr 693/1999 ,ekki virkur. Skoðaði líka niðurfelldar reglugerðir en þessi er ekki þar á meðal! Getur verið að mér hafi sést yfir eitthvað?
Hentar það kannske einhverjum málstað að fólk hafi ekki aðgang að þessari reglugerð meðan mesta moldviðrið gengur yfir útaf vægast sagt vafasamri skipun í embætti dómara við Héraðsdóma Norður-og Austurlands?
Lögin (hér að neðan) segja auðvitað til um skipunarrétt Dómsmálaráðherra, en jafnframt um skipan dómnefndar til að hæfnismeta! Til hvers væri það ef ekkert skal með það gera. Bara einhver atvinnubótavinna fyrir afdankaða dómara?
Hvaða rétt hefur settur dómsmálaráðherra til að niðra lögskipaða nefnd sem skal vera honum til ráðuneytis. Hvaða endemisvitleysa er það í honum og hans kórdrengjum að telja nefndina vera með derring? Helvítis hroki er þetta!
"III. kafli. Héraðsdómstólar.
12. gr. Dómarar í héraði eru 38 að tölu og skipaðir ótímabundið í embætti héraðsdómara af dómsmálaráðherra.
Þann einn má skipa í embætti héraðsdómara sem fullnægir þessum skilyrðum:
1. Hefur náð 30 ára aldri.
2. Hefur íslenskan ríkisborgararétt.
3. Er svo á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gegnt embættinu.
4. Er lögráða og hefur aldrei misst forræði á búi sínu.
5. Hefur hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.
6. Hefur lokið embættisprófi í lögfræði eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður því jafngilt.
7. Hefur í minnst þrjú ár verið alþingismaður eða stundað málflutningsstörf að staðaldri eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi hjá ríkinu eða sveitarfélagi, en leggja má saman starfstíma í hverri af þessum greinum.
Dómsmálaráðherra skipar þrjá menn í dómnefnd til þriggja ára í senn til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Skal einn nefndarmanna tilnefndur af Hæstarétti og er hann formaður nefndarinnar. Tilnefnir Dómarafélag Íslands annan mann í nefndina úr röðum héraðsdómara en Lögmannafélag Íslands þann þriðja úr hópi starfandi lögmanna. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt. Skipunartími í nefndina er þrjú ár, en þó þannig að skipunartími eins manns rennur út hvert ár. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns í nefndinni oftar en tvisvar samfleytt.
Dómnefnd skv. 3. mgr. skal láta dómsmálaráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um embætti héraðsdómara. Ráðherra setur að öðru leyti nánari reglur1) um störf nefndarinnar.
1)Rgl. 693/1999. " (feitletun er bloggritara)
Hver ætli yrðu viðbrögð ráðherrans ef æðsti embættismaður þjóðarinnar færi að túlka lögin bókstaflega, og skipa ráðherra af eigin geðþótt?
Það stendur jú ekki þarna að hann sé bundin af áliti neinna annarra !
En svona hljóðar upphaf 15.greinar stjórnarskrárinnar!
"15. gr. Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim".
Gæti orðið gaman að sjá upplitið á helstu forkólfum íhaldsins ef forsetinn færi að haga sér svipað og þeir sjálfir leyfa sér!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:21 | Facebook
Athugasemdir
Þörf ábending og málefnaleg eins og annað sem ég hef lesið frá þér.
Árni Gunnarsson, 12.1.2008 kl. 00:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.