Össur er af hrekkjalómum kominn!

Þótt ég þekki ekki Össur persónulega, þá hafa forfeður okkar nokkur samskipti átt á fyrrihluta síðustu aldar.  Svo var mér tjáð ungum að Skarphéðinn heitinn Össurarson,faðir Össurar, hafi verið vinnumaður hjá afa mínum og nafna, Kristjáni H. Benjamínssyni bónda á Ytri-Tjörnum í Eyjafirði.

Þannig háttaði til að einhver kritur var milli afa og nágrannabónda, Benedikts í Syðra-Tjarnakoti um hvernig landamerkjum skyldi háttað milli bæjanna, og taldi  vinnumaðurinn  að ekki væri þá um stundir of kært með bændum.  Eitt sinn kom hann til afa og tjáði honum að hann hefði fundið sauð einn úr hjörð Benedikts bónda ósjálfbjara í keldu niður á Staðarbyggðarmýrum, en það er allnokkuð fenjasvæði niður undan bæjunum í nokkurri fjarlægð.

Gerði Skarphéðinn sér ferð til húsbóndans og sagði fundinn og hver væri eigandinn og spurði kankvís, hvort nokkuð skyldi bjarga skepnunni?

"Láttu ekki svona Strákur, auðvitað ferðu og dregur sauðinn upp strax" hrópaði afi hinn reiðasti , að strákur skyldi ætla honum svona ótuktarskap gagnvart búfé nágrannans.

Skellti þá Össurarpabbi uppúr hinn glaðhlakkalegasti því auðvitað hafði hann bjargað skepnunni umsvifalaust, en hugðist reyna á "kristilegt" siðgæði húsbóndans

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gaman að þessu

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.2.2008 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband