Karl faðir minn fæddist líka fyrir 100 árum !

Theodór Kristjánsson ,f. 12.marz 1908, d.1.maí 1994.  Fæddist á Ytri-Tjörnum í Eyjafirði og ólst þar upp. Vann að bústörfum í foreldrahúsum framan af, en með vélvæðingunni og tilkomu bílsins fann hann sér strafsvettvang. Fékk sér ungur vörubíl, gamla ford 1930-31 árgerð og fór að sinna akstri í þágu sveitunganna snemma, fór til Reykjavíkur og sinnti m.a. akstri fyrir herinn á stríðsárum. Kom aftur norður í sveitina kæru og gerðist gröfukarl .

Framræsla Staðarbyggðamýra hin síðari hófst af fullum krafti upp úr stríðinu og réðist faðir minn sig til starfa við það verkefni ,sem menn töldu þá horfa til framfara, en nútíminn telur víst hafa verið misráðið. Starfaði hann síðar um tíma sem viðgerðamaður á vegum Vélasjóðs ríkisins sem rak skurðgröfurnar fyrstu árin. Ferðaðist þá vítt um land í þeim erindum, en tók svo aftur til við skurðgröftinn á heimaslóð sem sumarstarf næsta aldarfjórðunginn, en sinnti akstri skólabarna að vetrinum.

Kvæntist 22.desember 1946 móður minni ,kjarnakonunni Guðmundu Finnbogadóttur , kominni af Vestfirskum galdramönnum eins og faðir minn gjarnan sagði, fæddri í Krossadal við Tálknafjörð 19.júní 1918. d. 4.ágúst 1996. Fæddust þeim 9 börn sem öll komust til manns, 5 dætur og 4 synir auk 1 dóttur sem móðir mín átti fyrir.

1965 ,eftir að hafa m.a. um nokkurt skeið verið húsverðir í Félagsheimilinu Freyvangi meðfram öðrum störfum og haft búsetu þar., keyptu foreldrar mínir nýbýlið Tjarnaland af systur hans og mági og hófu búskap með kýr og kindur .  Á Tjarnalandi , nýbýli úr fæðingarjörð hans Ytri-Tjörnum bjuggu þau síðan til æviloka eftir að hafa átt nokkurra ára seinni hálfleik í Freyvangi sem húsverðir.

Blessuð sé minning þeirra!


mbl.is 100 árum of seint
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallmundur Kristinsson

Já, þau voru sómafólk.

Hallmundur Kristinsson, 13.3.2008 kl. 00:28

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já tek undir blessuð sé minning þeirra.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.3.2008 kl. 13:12

3 identicon

Sæll frændi. Þegar ég les þetta rifjast upp fyrir mér myndskeið sem Hjörleifur heitinn Tryggvason á Ytra-Laugalandi tók í afmæli Theódórs, líklega hefur það verið 1992 eða 3. Þar er glatt á hjalla í stofunni á Tjarnalandi, húsbóndi veitir þar á báðar hendur og húsfreyja sér um að hver hafi nóg af kaffi. Systkinin frá Tjörnum ræða landsins gagn og nauðsynjar, kannski eitthvað um andleg málefni líka. Þá er og minnisstætt að í stofunni var afar þykkt reykjarkóf, sem einkum stóð upp af Dagrúnu. Þetta myndbrot er áreiðanlega til og er ómetanleg heimild um þetta sómafólk sem nú er gengið.

Kveðja, Baldur H. Benjamínsson 

Baldur Helgi Benjamínsson (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 13:53

4 identicon

Gaman að fá svona smá ævisögusamantekt, og verð ég að játa það að ég veit alltof lítið um mínar afar og ömmur fyrir utan hvaðan þau eru. Verð að fara rukka þig, pabbi, um þeirra ævisögur. Gaman að segja frá því, Baldur, að við, Brúnafjölskyldan, eigum til þetta myndband sem þú talar um og er ekki svo langt síðan við vorum að horfa á það,

Fanney H. Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 20:18

5 identicon

Þetta var stórskemmtilegt ágrip Kristján gaman að lesa þetta, ég tek því sem gefnu að þetta myndband úr afmælinu hjá afa verði sýnt í Freyvangi í sumar.

Júlíus Freyr Theodórsson (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 10:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband