Á ég að gera áhlaup á bankann minn vegna ofurlauna nýráðins bankastjóra?

Ég hef allan minn feril haft viðskipti við Búnaðarbankann-KB banka-Kaupþing banka-Kaupþing, eða um 40 ára skeið. Viðskiptin hafa verið vinsamleg lengst af, þökk sé góðu starfsfólki útibúsins á Akureyri.

Þegar S-ránshópur svo kallaðra Framsóknar rummunga stal Bankanum mínum sællar minningar undir forystu þeirra Finns og Ólafs, með fulltingi Kvóta Dóra og Valgerðar, varð mér um og ó . Hugleiddi mjög að flytja viðskipti mín annað.

Þótti það mjög ógeðfellt að eiga fjármál mín undir þessum kónum, sem og  að geyma það litla fé sem ég var að nurla í s.k. séreignalífeyrissjóð í umsjá ofurlaunabófanna sem stýrðu stofnunni á landsvísu og fengu sérstaka bónusa fyrir að gambla sem ógætilegast með þá aura sem þeir tóku að sér að ávaxta fyrir mig.

Eftir nokkrar vangaveltur sá ég þó fljótt, að miðað við hvernig kaupin gerðust á eyrinni í þessum bransa , mundi það æra óstöðugan að komast undan þessum kónum, því vísast mundu þeir verða komnir inná gafl áður en varði í hverri þeirri fjármálastofnun sem ég flytti mig til.

Nú þegar þessi banki er kominn til baka til föðurhúsanna hafði maður væntingar um að siðlegri hættir yrðu uppteknir í sporslum til stjórnenda, ekki síst í ljósi þeirra erfiðu tíma sem virðast framundan fyrir alla þegna þessa þjóðfélags.

En ,nei. Maður er handvalinn án auglýsingar til að stýra bankanum og honum boðin nánast ofurlaun, miðað við launahefð í opinbera geiranum. Hærri en forsetinn og seðlabanka-aðalstjórinn og mikið hærri en forsætisráðherra, en samt verður umfang bankans ekki nema 10 % af gamla Kaupþingi.

Mér er skapi næst að flytja þessar fáu krónur annað, segja mig úr lögum við bankann minn!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband