Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Á ég að gera áhlaup á bankann minn vegna ofurlauna nýráðins bankastjóra?

Ég hef allan minn feril haft viðskipti við Búnaðarbankann-KB banka-Kaupþing banka-Kaupþing, eða um 40 ára skeið. Viðskiptin hafa verið vinsamleg lengst af, þökk sé góðu starfsfólki útibúsins á Akureyri.

Þegar S-ránshópur svo kallaðra Framsóknar rummunga stal Bankanum mínum sællar minningar undir forystu þeirra Finns og Ólafs, með fulltingi Kvóta Dóra og Valgerðar, varð mér um og ó . Hugleiddi mjög að flytja viðskipti mín annað.

Þótti það mjög ógeðfellt að eiga fjármál mín undir þessum kónum, sem og  að geyma það litla fé sem ég var að nurla í s.k. séreignalífeyrissjóð í umsjá ofurlaunabófanna sem stýrðu stofnunni á landsvísu og fengu sérstaka bónusa fyrir að gambla sem ógætilegast með þá aura sem þeir tóku að sér að ávaxta fyrir mig.

Eftir nokkrar vangaveltur sá ég þó fljótt, að miðað við hvernig kaupin gerðust á eyrinni í þessum bransa , mundi það æra óstöðugan að komast undan þessum kónum, því vísast mundu þeir verða komnir inná gafl áður en varði í hverri þeirri fjármálastofnun sem ég flytti mig til.

Nú þegar þessi banki er kominn til baka til föðurhúsanna hafði maður væntingar um að siðlegri hættir yrðu uppteknir í sporslum til stjórnenda, ekki síst í ljósi þeirra erfiðu tíma sem virðast framundan fyrir alla þegna þessa þjóðfélags.

En ,nei. Maður er handvalinn án auglýsingar til að stýra bankanum og honum boðin nánast ofurlaun, miðað við launahefð í opinbera geiranum. Hærri en forsetinn og seðlabanka-aðalstjórinn og mikið hærri en forsætisráðherra, en samt verður umfang bankans ekki nema 10 % af gamla Kaupþingi.

Mér er skapi næst að flytja þessar fáu krónur annað, segja mig úr lögum við bankann minn!

 


Brýnt að henda þessum guttum út af þingi sem fyrst!

Eignarrétturinn er auðvitað helgur og á að vera varinn, en sumir eiga ekki að vera jafnari en aðrir í því.

 Ástæðulaust að þeir sem hafa hagnast á að hafa okkur hin að fíflum sleppi með fenginn úr landi meðan við sem rænd vorum fyrir heimsku sakir , erum hneppt á eilífan skuldaklafa!

Svona íhaldsálfar gera okkur mörg ,sem eitt sinn fylgdu þessum s.k. Sjálfstæðisflokki að málum, að harðsvíruðum kommum! Þvílíka skömm hefur maður á þessum málflutningi og hagsmunagæslu fyrir fáa á kostnað fjöldans.


mbl.is Vill ekki frysta eignir auðmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirmálslán og undirmálsfólk?

Pæling hvort þessi tvenn UNDIRMÁL hafi valdið okkur mestum erfiðleikum! Nefnilega Undirmálslánin s.k. í Bandaríkjunum og meint Undirmálsfólk hér í yfirstjórn efnahagmála?
mbl.is Stjórnvöld skilningslaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir hvaða "ÁBYRGÐ" er verið að borga há laun?

Sá mikli misskilningur virðist uppi hjá sumum gæðasálum hér á bloggsíðum sem víðar , að krafan um afsögn Seðlabankastjóra megi líkja við persónulegt einelti!

Vissulega hefur þetta farið að snúast nokkuð hastarlega um persónu eins manns, en það er af gefnu tilefni. 

Davíð Oddsson er nefnilega einn hæst launaði embættismaður þjóðarinnar, og rökin fyrir háum launum slíkum til handa eru jú jafnan þau að þeir beri mikla ábyrgð!

Og hvernig axla menn ábyrgð?  Jú með að segja sig frá þeim störfum sem þeir hafa ekki reynst ráða við að gegna.  Hafa klúðrað með einhverjum hætti!  Launin eiga jú að gera þeim fært að leggja fyrir til mögru áranna ,ef þeir skyldu missa sitt hálaunaða ábyrgðarstarf!

Það er almannarómur , ekki bara hérlendur , heldur einnig að utan kominn, að þess ágæti maður hafi heldur betur klúðrað málum fyrir hönd okkar fjármálakerfis og honum beri því að sýna gott fordæmi og víkja fyrstur manna. Axla þannig þá miklu ábyrgð sem hann hefur fengið ríkulega greitt fyrir en ekki risið undir! 

Maðurinn er farinn að skaða möguleika okkar að byggja upp traust á nýjan leik!


Afskaplega er það skiljanlegt og þakkarvert!

Ef FME hefur hafnað lífeyrisjóðunum,  ef rétt er sem Guðmundur Magnússon hefur fyrir satt á bloggi sínu, með vísan í frétt á Vísi.is í dag að nokkrir þekktir Framsóknarfýrar hafi átt aðild að málinu!

Semsagt að Sigurður Einarsson og Ólafur Ólafsson hafi ætlað klifra upp bakið á lífeyrissjóðum landsins til valda í bankanum á ný! Þeir hefðu væntanlega ekki verið lengi að olnboga sig áfram til algjörra yfirráða á ný!


mbl.is FME tók strax dræmt í hugmyndir lífeyrissjóða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Ísland!

Gott að þessi útrás var stöðvuð strax!
mbl.is Ísland náði ekki kjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Móðuharðindi af mannavöldum".

Þekkt ummæli  frá sjöunda áratug síðustu aldar rifjast upp eftir að hafa upplifað þau ósköp sem hafa gengið yfir fjármálaheiminn og hvað sterkast hér á landi.

Minnir að Karl Kristjánsson þáverandi framsóknarþingmaður og þingeyingur hafi átt þessi fleygu orð um ráðslag Viðreisnarstjórnarinnar s.k. , einhverntíman þegar að kreppti í efnahagsmálum.

Hefur verið sem við manninn mælt, að hverju sinni sem Seðlabankastjórinn okkar hefur opnað munninn hefur harðnað enn frekar á dalnum, sem bætist við meinta vanrækslu þar á bæ við að halda skikk á málum.

Blessuð útrásin þarfaðist auðvitað betra aðhalds og eftirlits ásamt með girðingum sem hefðu hamlað gegn stjórnlausu gambli sem nú er að koma bönkunum á kné.

Hvernig dettur svo Forsætisráðherra okkar í hug að lýsa yfir  að þessi Seðlabankastjórn njóti fyllsta trausts?


Er bankastjórn Seðlabankans virkilega enn óbreytt?

Hefur ekki farið mikið fyrir þeim undanfarið, en því var hvíslað að mér áðan að búið væri að setja þá af!

Hef ég misst af einhverju?


mbl.is Glitnisyfirtakan áþekk mistök og gjaldþrot Lehmans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gengur mönnum til að kasta alltaf skít í Frjálslynda?

Maður verður ítrekað vitni að geðvonskulegum árásum sauðtryggra flokkshesta annarra flokka,  sem virðist líða illa yfir vangetu eigin átrúnaðargoða, á Frjálslynda flokkinn og þingmenn hans.

Nú vill svo til að Frjálslyndir  ásamt Vinstri grænum,eru þeir þingflokkarnir sem minnsta möguleika hafa haft síðasta áratuginn til að valda vandræðum ,og gera stór mistök í stjórn þessa lands. Þvert á móti má benda á margar tillögur þaðan sem hefði betur verið hlustað á!

Þar af leiðandi ekki haft tækifæri til að sýna af sér þá undirmálstakta og aulahátt sem sannarlega má klína á alla hina flokkana í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem nú er uppi.

Hvað gengur þessu fólki þá til að vera eilíft að lasta þetta fólK?

Sýnist vera einhver vanþroski, því menn treysta sér ekki til að viðurkenna hvert samsafn afglapa er í þeirra eigin flokkum!

 


Hví ætti Reykjavík ekki að geta þetta eins og minni bæjarfélög eins og t.d Akureyri og Ísafjörður?

Hef ekki skilið undanfarið þennan barning með að halda til streitu gjaldtöku í strætó á Reykjavíkursvæðinu.

Það er hvort sem er óhugsandi að reka þetta á markaðslegum forsendum og veita jafnframt viðunandi þjónustu.

Ýmis rök hníga að sparnaði á móti í svo mörgum þáttum borgarrekstursins, svo maður tali ekki um heimilisreksturinn hjá íbúunum, sérstaklega þeim sem minna mega sín!


mbl.is Ólafur F.: Leggur til niðurfellingu fargjalda í Strætó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband