Fréttablaðið í dag! Hvenær fáum við svona stjórnmálamenn?

 

Hér sjáum við í reynd þann mikla mun sem er á siðferði íslenskra stjórnmálamanna samanborið við það sem tíðkast í nágrannalöndunum. Í stað þess að verjast og afneita sök með rökleysum eins og við höfum ítrekað mátt hlýða á af munni íslenskra ráðherra sem hafa verið staðnir að vafasömum gerningum, er veruleikinn hjá frændum vorum í Skandinavíu þessi:

"Upplýsti forsætisráðherra ekki um vinskap.

Noregur Manuela Ramin-Osmundsen, ráðherra barna- og jafnréttismála í Noregi, sagði af sér á fimmtudag, aðeins fjórum mánuðum eftir að hún tók við embættinu. Hún hafði gert þau mistök að skipa vinkonu sína, Idu Hjort Kraby, í embætti umboðsmanns barna. Engu breytti þótt Kraby hafi að flestra mati tvímælalaust verið hæfust allra umsækjenda í embættið.

Það sem úrslitum réði var að Ramin-Osmundsen hafði ekki skýrt frá fyrri kynnum þeirra opinberlega. Hún hafði heldur ekki upplýst Jens Stoltenberg forsætisráðherra um vinskap þeirra, sem staðið hefur í sextán ár.

Í gærmorgun, daginn eftir að ráðherrann sagði af sér, sendi Kraby síðan frá sér yfirlýsingu um að hún hefði sagt af sér sem umboðsmaður barna, aðeins viku eftir að hún var skipuð í embættið. Í yfirlýsingunni segist hún líta svo á að embætti umboðsmanns barna verði að geta "þolað deilur og átök á opinberum og pólitískum vettvangi, þegar barist er fyrir hagsmunum barna". Embættinu sé best þjónað með því að ekki verði með nokkru móti hægt að "draga í efa lögmæti þess og sjálfstæði".

Kraby hafði reyndar skömmu fyrir jól dregið til baka umsókn sína um embætti umboðsmanns barna. Þann 3. janúar hittust þær Kraby og Ramin-Osmundsen hins vegar yfir hádegisverði ásamt fleiri kvenkyns lögfræðingum. Við það tækifæri átti ráðherrann samtal við sameiginlega vinkonu þeirra beggja, sagðist hafa frétt að Kraby hafi dregið umsókn sína til baka og sagði það synd því hún væri sterkur umsækjandi. Daginn eftir hringdi Kraby í ráðuneytið og bað um að umsókn sín yrði tekin með við afgreiðslu málsins.

Þessa atburðarás vissi Stoltenberg forsætisráðherra ekkert um fyrr en að morgni fimmtudagsins nú í vikunni, sama dag og Ramin-Osmundsen sagði af sér.

Ramin-Osmundsen er frá eyjunni Martinique í Karíbahafinu, þar sem Frakkar ráða ríkjum, og var því franskur ríkisborgari þegar hún giftist Norðmanninum Terje Osmundsen árið 1987. Sama ár lauk hún lögfræðinámi í París. Þau fluttu til Noregs árið 1991 og hún hlaut norskan ríkisborgararétt í október árið 2007, rétt áður en hún varð ráðherra barna- og jafnréttismála í ríkisstjórn Jens Stoltenbergs. Hún varð þar með fyrsti innflytjandinn í Noregi sem settist á ráðherrastól. - gb"

Gott væri nú ef Árni "settur" tæki sér konuna til fyrirmyndar.

Hér virðist ekki deilt um að sú hæfasta hafi verið valin, heldur yfirsjón að greina ekki frá vinskap sem gat valdið vanhæfi þess sem skipaði.

(feitletranir eru síðuritara)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband