Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Fangaflug CIA, þvílík forsmán að skuli líðast í nútímaþjóðfélögum

að eitt öflugasta stórveldi heims valti yfir heimsbyggðina með þessum viðbjóði. Var að horfa á Danska heimildarmynd um þessa hneysu. Ljóst er að Bandaríkjamönnum hefur tekist að gera okkur Íslendinga og Dani f.h. Grænlendinga samseka í hrikalegum mannréttindabrotum með að samþykkja með uppgerðar meðvitundarleysi að s.k. fangaflugvélar fái að millilenda og fljúga um lofthelgi ríkjanna.

Snautlegt að sjá danska ráðamenn þykjast tröllheimska þegar gengið var á þá með að tjá sig um rökstuddar grunsemdir um þessi fangaflug. Öll munum við undirlægjuhátt okkar ráðamanna við svipaðar aðstæður.

 


Banna ber öll stórvirk veiðarfæri s.s. troll.

Eina vitið í stöðunni. Augljóst að verið er að rústa lífríki sjávarins með yfirgangi öflugra skipa með skaðleg veiðarfæri.  Þegar sá yfirgangur bætist við ýmis mengunarvandamál og loftlagsbreytingar er ekki von að vel fari.

Leyfum eingöngu veiðar með handfærum og e.t.v . einhverjum netastubbum. Og höfum eingöngu sóknartakmarkanir ef þörf er talin á!


mbl.is Allir fiskistofnar í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta ekki bara umhyggja fyrir Kastró?

Að karl greyið þurfi ekki að lifa lengi við valdaleysi. Maður sem þekkir ekki annað en að ráða svo lengi sem elstu menn muna?

Að Kastró bráðum kveðji þennan heim,

Kænu Makki þráir afar heitt

 Í æðri veröld tekið höndum tveim,

til  Marxa Kalla, Fidel brosi breitt.


mbl.is McCain vonast til að Kastró fari brátt yfir móðuna miklu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afturhaldsviðhorf ungs manns! Jón Trausti Reynisson í leiðara DV í dag.

Ásakar hann núverandi borgarstjóra um afturhald vegna afstöðu til flugvallar og byggðar í Vatnsmýrinni. Vill Ritstjórinn frekar sjá þar þéttbyggt hverfi háhýsa, en það hélt ég reyndar að væri ekki lengur inn hjá skipulagsfræðingum nútímans. Búið er að uppgötva ýmsar neikvæðar hliðar slíkra byggða, og hér á norðurhveli verða slík hverfi afleit til búsetu. Skuggsæl  og sviptivindasöm, eilífur stormbeljandi um hin þröngu húsagöng.

Skemmst er að minnast fróðlegrar samantektar  Sigmundar Gunnlaugssonar á því hvernig ýmsar Evrópuþjóðir eru að mylja niður heilu blokka og háhýsahverfin og endurreisa þau í eldri og lágreistari stíl.

Annað sem mér finnst líka skipta máli í umræðu um byggð í þessari láglendu mýri, er hlýnun jarðar ,bráðnun jökla og hækkandi sjávarstaða sem spáð er í býsna náinni framtíð. Finnst því atriði ekki mikill gaumur gefinn, að kannske er ekki svo æskilegt að efla byggð á svo miklu láglendi ef annars er kostur. Þykir kannske broslegt sjónarmið, en því ekki að velta því fyrir sér líka!  Mikið byggingamagn á þessum stað hlýtur frekar að pressa niður landið. Alþekkt er að land rís þegar jöklar bráðna en sígur með auknu jökulfargi.


Össur er af hrekkjalómum kominn!

Þótt ég þekki ekki Össur persónulega, þá hafa forfeður okkar nokkur samskipti átt á fyrrihluta síðustu aldar.  Svo var mér tjáð ungum að Skarphéðinn heitinn Össurarson,faðir Össurar, hafi verið vinnumaður hjá afa mínum og nafna, Kristjáni H. Benjamínssyni bónda á Ytri-Tjörnum í Eyjafirði.

Þannig háttaði til að einhver kritur var milli afa og nágrannabónda, Benedikts í Syðra-Tjarnakoti um hvernig landamerkjum skyldi háttað milli bæjanna, og taldi  vinnumaðurinn  að ekki væri þá um stundir of kært með bændum.  Eitt sinn kom hann til afa og tjáði honum að hann hefði fundið sauð einn úr hjörð Benedikts bónda ósjálfbjara í keldu niður á Staðarbyggðarmýrum, en það er allnokkuð fenjasvæði niður undan bæjunum í nokkurri fjarlægð.

Gerði Skarphéðinn sér ferð til húsbóndans og sagði fundinn og hver væri eigandinn og spurði kankvís, hvort nokkuð skyldi bjarga skepnunni?

"Láttu ekki svona Strákur, auðvitað ferðu og dregur sauðinn upp strax" hrópaði afi hinn reiðasti , að strákur skyldi ætla honum svona ótuktarskap gagnvart búfé nágrannans.

Skellti þá Össurarpabbi uppúr hinn glaðhlakkalegasti því auðvitað hafði hann bjargað skepnunni umsvifalaust, en hugðist reyna á "kristilegt" siðgæði húsbóndans

 


Er það ekki fyrir þetta sem við borgum sérfræðingunum háu launin?

Enn og aftur vandamál með þessa blessaða ferju.

Hvað skyldu margir verkfræðingar og aðrir fræðingar á töxtum sem telja daglaun meðal -Jónsins á tímann hafa komið að útboðsgerðinni?


mbl.is Kostnaður vegna útboða Sæfara hækkar enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almyrkvi á tungli í nótt.Eitthvað verður skuggalegt um að litast í bloggheimum í fyrramálið!

Í almyrkvans skugga er skaplyndið grátt,

og skæting mig langar að láta hér flakka.

Þótt stjórnin af splundrist ef stafa ég flátt,

mér stendur á sama sem ódælum krakka.

 

 


mbl.is Almyrkvi á tungli annað kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össurarlimra næturbloggara.

Össur er tíðum með skæting á takteinum,

telur sér leyfist að líkja eftir Staksteinum,

En oft vill svo fara

hann ergir þá bara

er mávana skjóta með Marteinum.

 


Spurning hvort ekki sé skynsamlegra að stöðva alfarið loðnuveiðar en auka þorskveiðina í staðinn!

Þótt skiljanlegt sé að þetta sé reiðarslag fyrir þær útgerðir og sjávarbyggðir sem hafa treyst á loðnuveiði og bræðslu, þá er eitthvað sem segir manni að þessi gengdarlausa loðnuveiði sé hluti vandamála þorsksins og ennfrekar aukist neikvæð áhrif loðnuveiðanna ef geyma á í auknu magni sveltandi þorsk í hafinu!

 


mbl.is „Ölum enn með okkur von"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyndið að Össur skuli missa sig á blogginu núna!

Var karlinn ekki hjá Sigmundi Erni í þættinum Mannamáli um helgina . Þar lýsti hann þeim Þrengingum sem fylgdu í kjölfar tölvupósts hans til "Bónusgæjans" eins og hann orðaði það, og hvernig í kjölfarið hafi hann komist heldur betur í hann krappann. Jaðrað við að geispa sinni pólitísku golu endanlega að eigin áliti.

En líklega hefur rifjast upp fyrir Össuri eitthvað kikk sem hann fékk út úr svona fætingi og hann ákveðið að láta reyna á einhverja Völvuspána sem mig minnir að hafi spáð honum erfiðleikum vegna lausbeislunar í bloggskrifum!

Völva vikunnar allavega sagði:

" Össur Skarphéðinsson þyrlar upp moldviðri og fer stundum offari, mér sýnist að hann mætti gæta orða sinna betur til að halda friðinn. Það er eins og hann gleymi því stundum að hann er ekki lengur í stjórnarandstöðu."

 


mbl.is Pistill Össurar ræddur á þingflokksfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband