Afturhaldsviðhorf ungs manns! Jón Trausti Reynisson í leiðara DV í dag.

Ásakar hann núverandi borgarstjóra um afturhald vegna afstöðu til flugvallar og byggðar í Vatnsmýrinni. Vill Ritstjórinn frekar sjá þar þéttbyggt hverfi háhýsa, en það hélt ég reyndar að væri ekki lengur inn hjá skipulagsfræðingum nútímans. Búið er að uppgötva ýmsar neikvæðar hliðar slíkra byggða, og hér á norðurhveli verða slík hverfi afleit til búsetu. Skuggsæl  og sviptivindasöm, eilífur stormbeljandi um hin þröngu húsagöng.

Skemmst er að minnast fróðlegrar samantektar  Sigmundar Gunnlaugssonar á því hvernig ýmsar Evrópuþjóðir eru að mylja niður heilu blokka og háhýsahverfin og endurreisa þau í eldri og lágreistari stíl.

Annað sem mér finnst líka skipta máli í umræðu um byggð í þessari láglendu mýri, er hlýnun jarðar ,bráðnun jökla og hækkandi sjávarstaða sem spáð er í býsna náinni framtíð. Finnst því atriði ekki mikill gaumur gefinn, að kannske er ekki svo æskilegt að efla byggð á svo miklu láglendi ef annars er kostur. Þykir kannske broslegt sjónarmið, en því ekki að velta því fyrir sér líka!  Mikið byggingamagn á þessum stað hlýtur frekar að pressa niður landið. Alþekkt er að land rís þegar jöklar bráðna en sígur með auknu jökulfargi.


Össur er af hrekkjalómum kominn!

Þótt ég þekki ekki Össur persónulega, þá hafa forfeður okkar nokkur samskipti átt á fyrrihluta síðustu aldar.  Svo var mér tjáð ungum að Skarphéðinn heitinn Össurarson,faðir Össurar, hafi verið vinnumaður hjá afa mínum og nafna, Kristjáni H. Benjamínssyni bónda á Ytri-Tjörnum í Eyjafirði.

Þannig háttaði til að einhver kritur var milli afa og nágrannabónda, Benedikts í Syðra-Tjarnakoti um hvernig landamerkjum skyldi háttað milli bæjanna, og taldi  vinnumaðurinn  að ekki væri þá um stundir of kært með bændum.  Eitt sinn kom hann til afa og tjáði honum að hann hefði fundið sauð einn úr hjörð Benedikts bónda ósjálfbjara í keldu niður á Staðarbyggðarmýrum, en það er allnokkuð fenjasvæði niður undan bæjunum í nokkurri fjarlægð.

Gerði Skarphéðinn sér ferð til húsbóndans og sagði fundinn og hver væri eigandinn og spurði kankvís, hvort nokkuð skyldi bjarga skepnunni?

"Láttu ekki svona Strákur, auðvitað ferðu og dregur sauðinn upp strax" hrópaði afi hinn reiðasti , að strákur skyldi ætla honum svona ótuktarskap gagnvart búfé nágrannans.

Skellti þá Össurarpabbi uppúr hinn glaðhlakkalegasti því auðvitað hafði hann bjargað skepnunni umsvifalaust, en hugðist reyna á "kristilegt" siðgæði húsbóndans

 


Er það ekki fyrir þetta sem við borgum sérfræðingunum háu launin?

Enn og aftur vandamál með þessa blessaða ferju.

Hvað skyldu margir verkfræðingar og aðrir fræðingar á töxtum sem telja daglaun meðal -Jónsins á tímann hafa komið að útboðsgerðinni?


mbl.is Kostnaður vegna útboða Sæfara hækkar enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almyrkvi á tungli í nótt.Eitthvað verður skuggalegt um að litast í bloggheimum í fyrramálið!

Í almyrkvans skugga er skaplyndið grátt,

og skæting mig langar að láta hér flakka.

Þótt stjórnin af splundrist ef stafa ég flátt,

mér stendur á sama sem ódælum krakka.

 

 


mbl.is Almyrkvi á tungli annað kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össurarlimra næturbloggara.

Össur er tíðum með skæting á takteinum,

telur sér leyfist að líkja eftir Staksteinum,

En oft vill svo fara

hann ergir þá bara

er mávana skjóta með Marteinum.

 


Spurning hvort ekki sé skynsamlegra að stöðva alfarið loðnuveiðar en auka þorskveiðina í staðinn!

Þótt skiljanlegt sé að þetta sé reiðarslag fyrir þær útgerðir og sjávarbyggðir sem hafa treyst á loðnuveiði og bræðslu, þá er eitthvað sem segir manni að þessi gengdarlausa loðnuveiði sé hluti vandamála þorsksins og ennfrekar aukist neikvæð áhrif loðnuveiðanna ef geyma á í auknu magni sveltandi þorsk í hafinu!

 


mbl.is „Ölum enn með okkur von"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyndið að Össur skuli missa sig á blogginu núna!

Var karlinn ekki hjá Sigmundi Erni í þættinum Mannamáli um helgina . Þar lýsti hann þeim Þrengingum sem fylgdu í kjölfar tölvupósts hans til "Bónusgæjans" eins og hann orðaði það, og hvernig í kjölfarið hafi hann komist heldur betur í hann krappann. Jaðrað við að geispa sinni pólitísku golu endanlega að eigin áliti.

En líklega hefur rifjast upp fyrir Össuri eitthvað kikk sem hann fékk út úr svona fætingi og hann ákveðið að láta reyna á einhverja Völvuspána sem mig minnir að hafi spáð honum erfiðleikum vegna lausbeislunar í bloggskrifum!

Völva vikunnar allavega sagði:

" Össur Skarphéðinsson þyrlar upp moldviðri og fer stundum offari, mér sýnist að hann mætti gæta orða sinna betur til að halda friðinn. Það er eins og hann gleymi því stundum að hann er ekki lengur í stjórnarandstöðu."

 


mbl.is Pistill Össurar ræddur á þingflokksfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig getur verið óviðeigandi að fjalla um náttúruvernd í kirkjum?

Held að þeir hljóti að misskilja eitthvað sem telja verndun umhverfisins utan viðfangsefna kirkjunnar.

 Ólíkt finnst mér sú kirkja standa mér nær en sú sem galar einhverjar særingar upp úr fornum skræðum sem enginn veit hver samið hefur!


Meirihlutamyndanir í sveitarstjórnum á gráu svæði?

Vísa hér aftur til ábendingar minnar í grein Ámunda Loftssonar hér næst á undan.

Hef stundum velt fyrir mér, líkt og Ámundi, lögmæti þess að s.k. meirihlutar geti sest á málefni sveitarfélaga og jafnvel haldið upplýsingum frá hluta kjörinna fulltrúa sinna til lengri eða skemmri tíma.

Tel að líta verði svo á að allir réttkjörnir fulltrúar sveitarfélags hafi jafnan rétt til að fá allar upplýsingar sem varða sveitarfélag sitt og allar fyrirætlanir um framkvæmdir og annað sem það varðar svo fljótt sem verða má. Þeir eru allir kjörnir sem jafnréttháir  til að fara með stjórn sveitarfélagsins í upphafi.

Vantar sennilega viðurlög til að taka á þeim sem brjóta gegn þessari sjálfsögðu reglu.

Fyrirframgefnir meirihlutar eru í sjálfu sér óþarfir þannig séð, því auðvitað myndast í umræðunni um málaflokka meirihlutar um það sem vænlegt þykir fyrir viðkomandi sveitarfélög.

 


Þörf ábending Ámunda!

Ámundi Loftsson ritar þarfa hugvekju í Fréttablaðið í dag undir titlinum ,

"Meðferð valds.

Menn hafa farið mikinn vegna síðustu meirihlutamyndunar í borgarstjórn Reykjavíkur. Þótti sumum þetta réttur framgangur lýðræðisins. Aðrir tala um lygi, svik, launráð og valdafíkn.

Ekkert hefur þó verið minnst á hvort meirihlutamyndun sé nauðsynleg í sveitarstjórnum. Eða stjórnmálum yfirleitt. Hvað felur hún í sér og er hún lýðræðisleg? Við myndun meirihluta er einnig myndaður minnihluti. Með því er afstaða og atkvæði þeirra sem kusu þá sem í minnihluta lenda að nánast engu gerð. Það geta verið einir í dag og aðrir á morgun eins og dæmin sanna.

Það er undarlegur siður og í raun magnað að það skuli viðgangast að hluti kjörinna fulltrúa geti bundist samtökum um að ræna aðra fulltrúa möguleikum á að gegna því starfi sem þeir voru þó kosnir til að sinna. Það er í fyllsta máta andlýðræðislegt að mynda meirihluta um útilokun minnihlutans. Þetta á sér ekki stoð í sveitarstjórnarlögum og þarf að banna. Verksvið sveitarstjórna er að mestu afmarkað og bundið í lögum og lítill ágreiningur manna eða flokka þar um. Ekkert er heldur athugavert við að breytilegur meirihluti myndist við afgreiðslu mála. Þvert á móti er það mikið eðlilegra en að atkvæði séu greidd eftir fyrirfram gerðu samkomulagi um gagnkvæman stuðning til meiri valda en upp úr kjörkössunum kemur og útilokunar allt að helmingi kjörinna fulltrúa.

Þess vegna er það brýnt íhugunarefni hvernig menn fara með það umboð sem þeim er fengið.

Nýr borgarstjóri í Reykjavík var kjörinn í nafni Frjálslynda flokksins sem hann hefur gengið úr, aukinheldur er hann rúinn trausti félaga sinna í borgarstjórn. Hann er engu að síður borgarstjóri vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn seldi honum helming þess valds sem hann fékk frá kjósendum sínum fyrir það gjald að gera nærri helming borgarfulltrúa valdalausan.

Höfundur er verktaki"

Þetta er auðvitað mergurinn málsins. Kjörnum fulltrúum er trúað fyrir því í sameiningu að tryggja skynsamlega stjórn sveitarfélaga og þetta meiri-minnihlutarugl er gengið algjörlega út í öfgar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband